Sagan

Þjónustumiðstöð bókasafna er sjálfseignastofnun sem stofnuð var samkvæmt skipulagsskrá, dagsettri 24. júlí 1978, staðfestri af forseta Íslands 9. ágúst 1978 samkvæmt þágildandi lögum. Stofnunin starfar nú samkvæmt lögum um sjálfseignastofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999.

Markmið miðstöðvarinnar er að bæta bókasafnaþjónustu á Íslandi og styðja bókasöfnin í að auka þjónustu fyrir almenning.

Bókavarðafélag Íslands og Félag bókasafnsfræðinga stóðu að stofnun Þjónustumiðstöðvar bókasafna. Þessi félög hafa nú verið sameinuð í Upplýsingu, félag bókasafns- og upplýsingafræða. Félagið hefur engan fjárhagslegan ávinning af  rekstri Þjónustumiðstöðvar bókasafna. Allur arður rennur inn í stofnunina sjálfa sem notar hann til að uppfylla markmið sín.

Aðdragandinn að stofnun þjónustumiðstöðvar fyrir íslensk bókasöfn er langur. Hann einkennist af ótrúlegri fórnfýsi í sjálfboðavinnu sem unnin var af hópi bókasafnsfræðinga og bókavarða. Árunum frá 1972 til stofnunar Þjónustumiðstöðvar bókasafna árið 1978 má  skipta í þrjú skeið sem þó renna að hluta til saman: spjaldskrá yfir íslensk rit, bókaskrá fyrir íslensk rit og gerð spjaldskrársetta fyrir valin rit.

Upp úr 1970 var mikil gróska í bókasafnamálum á Íslandi. Bókasafnsfræðingar og bókaverðir unnu ötullega að skipulagningu safna, meðal annars á skólasöfnum í Reykjavík. Þegar þeir ræddu um sameiginleg vandamál safnanna kom í ljós að oftast voru þau svipuð en mest bar á skorti á bókfræðiritum til að nota við bókaval, skráningu, flokkun og annan frágang á safnefni. Árbók Landsbókasafns Íslands  var eitt fárra rita þar sem hægt var að fá upplýsingar um íslenska bókaútgáfu en galli var að fletta þurfti upp í 29 heftum og auk þess álíka mörgum viðaukum.

Árið 1972 var tileinkað bókinni. Á þessu merkisári klipptu nokkrir bókaverðir ásamt vinum og ættingjum, tvö sett af Árbbók Landsbókasafns Íslands í ræmur. Ræmurnar voru svo límdar upp á spjöld og raðað í eina stafrófsraðaða skrá. Þessi kaldhæðnislega tilviljun, að bækur voru klipptar niður á ári bókarinnar, kom til af þörf til að skapa sér hjálpartæki við vinnu. Þegar búið var að líma upp alla Árbókina var lauslega áætlað að í skránni hafi verið um 30.000 spjöld. Skrá þessi var gulls ígildi en hafði þá takmörkun að hún var spjaldskrá og því aðeins aðgengileg á einum stað.

Snemma árs 1974 var ákveðið að láta fleiri njóta góðs af verkinu og gefa út samsteypuskrá yfir tímabilið 1944-1973. Sótt var í ýmsa sjóði til að fá fé til útgáfu án árangurs. En þrátt fyrir mótbyr þá héldu bókaverðir ótrauðir áfram og í dreifibréfi til félagsmanna í Félagi bókasafnsfræðinga, dagssettu 1. nóvember 1974, eru fjáröflunarleiðir til að geta kostað forvinnu skrárinnar tíundaðar. Allmargir félagsmenn unnu sjálfboðavinnu á Bókasafni Seltjarnarness og Bókasafni Myndlista- og handíðaskólans. Vinnan fyrir Myndlistaskólann var greidd félaginu með sex frummyndum af veggspjöldum og ágóði að vinnunni á Bókasafni Seltjarnarness var notaður til að prenta myndirnar sem síðan voru seldar.

      

Einhvern veginn leiddi eitt af öðru og á meðan á forvinnu skrárinnar um íslensk rit 1944-1973 stóð fæddist ný hugmynd. Embætti bókafulltrúa ríkisins, Landsbókasafn Íslands og Ríkisútgáfa námsbóka hófu samstarf um útgáfu á spjaldskrárspjöldum. Hægt var að kaupa spjaldskrárspjöld fyrir nýjar bækur en ekki eldri. Ákveðið var að velja úr skránni skráningartexta yfir bækur sem til voru á almenningsbókasöfnum og gefa út spjaldasett sem söfnin gætu keypt.

Bókaverðir höfðu fram að þessu verið að vinna að kunnuglegum verkefnum, bókfræði og skipulagningu safna, en nú stóðu þeir í framleiðslu og sölu sem gerði þörfina enn brýnni að skapa rekstrarform um verkið.

Árið 1977 skipuðu Bókavarðarfélag Íslands og  Félag bókasafnsfræðinga sex manna starfshóp sem vinna átti að undirbúningi og stofnun þjónustumiðstöðvar fyrir bókasöfn. Bókaverðir höfðu oft rennt öfundaraugum til hinna Norðurlandanna þar sem árum saman höfðu verið reknar öflugar miðstöðvar sem veittu öllum safnategundum þjónustu í ýmsu formi. Vinna hópsins leiddi svo til stofnunar Þjónustumiðstöðvar bókasafna 1978.


Bókaskrá 1944-73, oftast kölluð bláa skráin, var gefin út 1978 og var fyrsta útgáfuverkefni Þjónustumiðstöðvar bókasafna. Í formála að skránni er miðstöðin kynnt, markmið hennar og starfssemi.

Bókaskráin er stafrófsskrá, auk höfundar og titils eru einnig  upplýsingar um pöntunarnúmer spjaldasetts, útgáfu, útgáfuár, flokkun og hvort ritið er barnabók eða skáldsaga þegar það á við. Skráin er í grallarabroti 21×30 sm og 322 blaðsíður. Skráin var mikill fengur fyrir íslensk bókasöfn þrátt fyrir galla sem voru t.d. röðunargalla því þá var stafrófsröðun í tölvu enn vandamál.

 

Ný og endurskoðuð útgáfa var gefin út árið 1984.

Í gegn um árin hefur Þjónustumiðstöð bókasafna tekið þátt í mörgum samvinnuverkefnum í bókasafna. Segja má að miðstöðin hafi fylgt takti bókasafnanna frá spjaldskrá til annarra verkefna. Hún hefur meðal annars flutt inn vörur fyrir bókasöfn og sinnt ráðgjöf hvað varðar innréttingu safna og þannig orðið sú miðstöð sem bókaverði dreymdi um þegar þeir stofnuðu Þjónustumiðstöð bókasafna.